Íslandsbanki • App frumgerð
Hönnun sem hröðun til framtíðar.
Eins og fjölmargir viðskiptavinir Íslandsbanka hafa tekið eftir hefur bankinn verið að bjóða upp á kjarnaþjónustu sína í gegnum tvö öpp. Bankareikningar, lán, og millifærslur í einu appi á meðan hitt app gefur meira vald yfir greiðslukortum.
Þetta þykir notendum óþægilegt af fjölmörgum ástæðum og flestum var ljóst að stakt app yrði betri framtíðarlausn. Hvernig stakt app myndi virka var ekki endilega augljóst. Því var ráðist í að gera frumgerð til að reyna á hugmyndina.
Sundurslitin upplifun
Íslandsbanki hafði gengið í gegnum endurmörkun og vann Kolibri með markaðsdeildinni að gerð stafrænnar ásýndar og hönnunarkerfis – í góðu samstarfi við auglýsingastofuna Brandenburg sem gerði prentmörkun.
Þegar nýr vefur fór í loftið kom fljótt í ljós að upplifun af öppunum tveimur var sundurslitin og gamaldags, bæði hvað útlitið varðar og virkni. Það var því orðið aðkallandi að sameina virknina í einu appi og var sett af stað verkefni með það að markmiði.
Fókus á heildræna upplifun í stafrænni þjónustu.
Frumgerð að sameinuðu appi
Vinna var langt komin með heildrænt stafrænt hönnunarkerfi og var því auðvelt að ráðast hratt í að púsla saman frumgerð að appi með notendaupplifun sem var í samræmi við upplifun af nýrri ásýnd bankans, m.a. á nýjum vef.
Fyrst var virkni á öppunum tveimur kortlögð, greint hvað vantaði á milli appa, og byrjað að fylla í eyðurnar. Ýmsar útfærslur voru prófaðar í skissum á viðmóti. Þá var ráðist í gerð gagnvirkrar frumgerðar.
Í leiðinni voru skoðaðar nýstárlegar aðferðir og notendavænni leiðir til að framkvæma aðgerðir eins og millifærslur, greiðslu reikninga eða byrjun á nýrri þjónustu hjá bankanum.
Innspýting í framþróun.
Tilgangur frumgerða er af ýmsum toga. Oft er hann sá að sannreyna grófa hugmynd og stundum er verið að þróa hárnákvæm líkön af vöru eða þjónustu.
Hér var verið að sannreyna hugmyndir um stefnubreytingu og útbúa framtíðarglefsu byggða á notendamiðaðri hönnun. Það er því gaman að sjá hvernig Íslandsbanki og Hugsmiðjan hafa hannað og þróað nýtt og sameinað Íslandsbankapp. Heildræn stafræn ásýnd er að mótast.