Að vinna hjá Kolibri

Framúrskarandi, fjölbreytt og frjótt samstarfsfólk. Stjórnun sem snýst um valdeflingu, gagnsæi og virðingu fyrir fólki. Áhugaverðar áskoranir sem við leysum með þéttri og skapandi teymisvinnu. Þannig rúllum við hjá Kolibri.

Hvað er Kolibri?

Við erum öðruvísi stafræn stofa

... og erum stolt af því

Við setjum fólk í fyrsta sæti og ekki bara í orði. Hjá okkur eru engir yfirmenn. Allar ákvarðanir, hvort sem þær snúa að rekstri félagsins eða verkefnum, eru teknar af fólki sem hefur réttu þekkinguna. Við trúum því að fólk sé skapandi, treystandi, og áhugasamt að nýta hæfileika sína til góðs. Með þessari nálgun höfum við séð að fólk blómstrar í starfi og nær meiri árangri fyrir viðskiptavini.

Persónuleikinn

Hvaða kostir eru verðlaunaðir hjá Kolibri?

Frumkvæði og sjálfskipulagning

Það eru engir yfirmenn í Kolibri. Við vinnum saman í teymum og skipuleggjum vinnuna okkar sjálf. Til að ná árangri í slíku umhverfi er gott að hafa drifkraft og hugsa í lausnum — en það getur verið jafnmikilvægt að kunna að segja nei og stjórna eigin vinnuálagi.

Forvitni og hugrekki

Við viljum aldrei standa í stað. Við getum alltaf bætt okkur og erum hugrökk að fara ótroðnar slóðir og læra nýja hluti. Þar af leiðandi fögnum við forvitnu hugarfari og að fólk spyrji spurninga. Við viljum að fólk ögri norminu. Við viljum aldrei heyra „af því við höfum alltaf gert þetta svona“ og frekar sjá góðar hugmyndir keyrðar áfram. Og fólkið hefur valdið til þess.

Samkennd

Þó svo að við tökum breytingum fagnandi viljum við að þær séu gerðar í góðri sátt og með hag heildarinnar og viðskiptavina okkar að leiðarljósi. Við viljum að fólk fái hreinskilna endurgjöf en að hún sé veitt af nærgætni og með hag þess sem þiggur hana í huga. Við erum samfélag og hluti af stærra samfélagi. Samkennd, tilfinningagreind, samfélagsvitund, og getan til að skilja mannlega samhengið eru því kostir sem njóta sín hjá okkur.

Gefa og geta tekið endurgjöf

Hjá okkur er rík áhersla á opin og hreinskilin samskipti. Við viljum ekki eyða tíma í að dansa í kringum hlutina og erum of metnaðarfull til að leyfa útkomunni að rýrast vegna meðvirkni. Það er því mikill kostur og jafnvel nauðsynlegt að fólkið í Kolibri sjái endurgjöf samstarfsfólks og viðskiptavina sem tækifæri til að verða enn betri.

Einlægni og berskjöldun

Við vitum að engin manneskja er fullkomin og það síðasta sem við viljum er að fólk beri vinnugrímu - þykist vera fullkomið og feli veikleika sína. Því er einlægni og berskjöldun sérstaklega mikilvægt atriði innan Kolibri. Við þorum að biðja um hjálp og viðurkenna mistök. Öðruvísi náum við ekki að ýta undir frábærar hugmyndir og leysa flókin vandamál saman.

Metnaður og vöxtur

Við sættum okkur ekki við meðalmennsku. Við höfum ástríðu fyrir að gera vel og að gera það þannig að okkur líði vel. Stór hluti af velgengni Kolibri í gegnum árin byggir á metnaði okkar til að læra nýjar aðferðir, vinnubrögð, og tækni — og beita þeim svo í vinnunni til árangurs. Við gerum því ráð fyrir að fólkið okkar sé á stöðugri vegferð til faglegs vaxtar og persónulegs þroska.

Sérstaðan

Stýrikerfið okkar

Við trúum því að fólk sé vel innrætt og taki ákvarðanir með bestu hagsmuni fyrirtækisins, viðskiptavina og hagaðila í huga. Þess vegna höfnum við hefðbundnum valdastrúktúr og forráðum einstaklinga yfir samstarfsfólki.

Til að þetta sé hægt þarf leikreglur. Við köllum það stýrikerfið okkar. Það samanstendur af ýmsum fræðum og nálgunum sem við höfum lært og tileinkað okkur í gegnum tíðina. Þessar nálganir hafa sannað gildi sitt  hvað varðar ánægju starfsfólks, vinnugæði og góðan rekstur.

Leikreglurnar

Holacracy er grunnurinn að leikreglum okkar í kringum valddreifingu og býr til skýrleika um ábyrgðir innan Kolibri. Ábyrgðarsvið tilheyra hlutverkum frekar en einstaklingum og hlutverk geta flakkað á milli fólks eftir þekkingu, áhuga, og getu. Breytingar á ábyrgðum og skipulagi gerast jafnóðum og eru keyrðar áfram af fólkinu sem þær varðar. Ákvörðunarvald er skýrt og engin ein manneskja ræður öllu.

Core Protocols er einn helsti innblástur okkar í tengslum við jákvæð samskipti og árangursríka samvinnu. Við tékkum reglulega inn þar sem við deilum hvernig okkur líður. Þetta byggir upp traust og skilning á aðstæðum hvers annars ásamt því að normalísera það að tala um tilfinningar - sem er eitt af opinberum leynivopnum okkar.

Aðferðirnar Design Thinking og Agile mikil áhrif á nálgun okkar á hvernig við skipuleggjum verkefni og dagleg störf. Við hugsum mikið um áhrif þess sem við þróun, hvort sem það er á notendur, hagaðila, samfélagið eða umhverfið.

Við viljum hreyfa okkur hratt frá hugmynd að lausn, fá viðbrögð frá raunverulegum notendum til að sannreyna lausnir, og afhenda þær í skrefum. Við leggjum auk þess mikla áherslu á gagnsæi. Án þess væri ekki hægt að dreifa völdunum í raun. Til að fólk geti virkilega tekið þátt í að móta framtíð fyrirtækisins og keyra áfram breytingar þarf það að hafa allar upplýsingar uppi á borðum. Allar fjárhagstölur, áætlanir og launatölur eru opnar innan Kolibri.

Fjölbreytileiki og inngilding

Við leggjum mikið upp úr að ráða fólk sem ekki bara passar við kúltúrinn okkar heldur bætir einhverju við hann. Við þróum stafrænar lausnir fyrir fjölbreytta flóru fólks og teljum gríðarlega mikilvægt að fjölbreyttur hópur fólks með ríka samkennd vinni saman til að engin sjónarhorn gleymist.

Við erum stolt af þeirri staðreynd að vera með kynjahlutföll sem eru mun jafnari en gengur og gerist í bransanum. Síðan síðla árs 2022 höfum við verið með jafnt hlutfall kvenna og karla við störf hjá Kolibri og í stjórn og framkvæmdastjórn félagsins.

Ertu með?

Ef þú ert með ástríðu fyrir stafrænni þróun og telur þig hafa eitthvað fram að færa í kúltúr eins og lýst er hér að ofan skaltu ekki hika við að heyra í okkur, hvort sem það er til að forvitnast meira eða sækja um starf.

Sækja um vinnu