Dómsmálaráðuneytið • Réttarvörslugátt
Drög að stafrænni byltingu.
Mál sem eru rekin fyrir dómstólum varða réttindi fólks, mikilvæga hagsmuni og öryggi almennings. Íslenska réttarvörslukerfið samanstendur af næstum 30 stofnunum og hundruðum lögmanna sem koma að rekstri mála fyrir dómstólum. Samskipti á milli þessara aðila hafa hingað til að mestu verið pappírsmiðuð, og gögn eru ýmist handslegin inn í mörg kerfi eða flutt á milli kerfa með útprentun, undirritun, stimplun og skönnun. Engin heildaryfirsýn er yfir framvindu mála þvert á stofnanir. Á tímum þar sem flest skrifleg samskipti fara fram á netinu er ljóst að hægt er að gera mun betur.
Það var því mikil áskorun sem blasti við þegar Kolibri fékk það verkefni að koma að framkvæmd hugmyndar um stafræna umbreytingu sem gengur undir nafninu Réttarvörslugátt.
Hugsað út fyrir rammann í formföstu umhverfi.
Þegar aðkoma Kolibri hófst vorið 2020 hafði þegar verið ákveðið að eyða ekki löngum tíma í að þróa fullkomna lausn fyrir alla notendur og allar tegundir af málum og koma í gagnið á einu bretti, heldur einblína á að sanna gildi hugmyndarinnar um Réttarvörslugátt sem fyrst í einu ferli í kerfinu sem kallar á mikil og hröð samskipti: Gæsluvarðhaldsferlinu.
Sérfræðingar Kolibri rannsökuðu þarfir notenda hjá lögreglu, dómstólum og fangelsum og komust að því að fjölmörg tækifæri voru til að spara pappír, handtök og ferðir og gera málsmeðferðina skilvirkari, einfaldari og vandaðri fyrir alla aðila. Farið var í þriggja daga hönnunarsprett þar sem Kolibri, dómsmálaráðuneytið, Dómstólasýslan og Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu unnu þétt saman að þróun frumgerðar að nýrri og betri upplifun þeirra aðila sem koma að málum. Frumgerðin var í kjölfarið kynnt markvisst fyrir væntanlegum notendum og hagaðilum og betrumbætt.
Ávinningurinn er minni tímapressa hjá ákærendum, minni handavinna hjá öllum aðilum og minni bið og pappírsvinna í dómsal.
Lítill hluti af lausninni settur í loftið strax.
Kolibri notar alltaf þegar við á þá aðferð að skilgreina lágmarkslausn (e. minimum viable product) til að koma ávinningi af stafrænum hugmyndum hratt í loftið, fá staðfestingu á því að hvaða leyti hugmyndin er góð og til að læra sem mest af endurgjöf frá raunverulegum notendum.
Þróunarteymi Kolibri samanstóð af framleiðanda, vef- og viðmótshönnuði, framenda- og bakendaforritara. Teymið er eitt af 18 teymum úr atvinnulífinu sem þróa vef-, vefþjónustu- og sjálfsafgreiðslulausnir fyrir Stafrænt Ísland að loknu stóru útboði í upphafi árs 2020.
Notast var við hönnunarkerfi Stafræns Íslands við alla vef- og viðmótshönnun. Með því að nýta hönnunarkerfið gat Kolibri teymið sett frumgerðina saman og þróað viðmótið hratt og örugglega, en hönnunarkerfi Stafræns Íslands styður við alþjóðlega aðgengisstaðla og er ætlað að tryggja samræmi í allri stafrænni þjónustu íslenska ríkisins. Þróunarteymið nýtti auk þess sameiginlega þróunar- og rekstrarinnviði Stafræns Íslands (Island.is). Tækniumhverfi Stafræns Íslands samanstendur m.a. af React.js, Node.js og Postgres gagnagrunni, allar lausnir eru reknar og hýstar í AWS skýinu og kóðinn er „open source“ á Github.
Teymið hóf tæknilega útfærslu á Réttarvörslugátt í lok ágúst 2020, í samvinnu við Dómsmálaráðuneytið og Stafrænt Ísland. Fyrsta útgáfa var svo afhent notendum um miðjan október, á 7 vikum. Lausnin var metin tilbúin í rekstur stuttu seinna og notkun hennar hófst á raunverulegum málum í byrjun nóvember með hópi notenda frá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu og Héraðsdómi Reykjavíkur, sem þróunarteymið vinnur náið með. Stefnt er að því að festa Réttarvörslugátt í sessi með almennri innleiðingu á ofangreindu ferli hjá umræddum stofnunum og fjölga svo markvisst stofnunum og málategundum í gáttinni.
Flytjum gögn en ekki fólk.
Réttarvörslugátt mun í náinni framtíð nýtast til að einfalda allan málarekstur, t.d. vegna sakamála, rannsóknarheimilda lögreglu og einkamála. Saksóknurum og lögmönnum verður gert kleift að hefja mál og afhenda gögn rafrænt til dómstóla á Íslandi með einföldum og öruggum hætti. Með því að búa til stafrænt aðgengi fyrir alla aðila að öllum ferlum og gögnum opnast m.a. möguleikar á að mál séu tekin fyrir á netinu ásamt því að öll málsmeðferð og samskipti verða skilvirkari og öruggari.
Með stafrænum samskiptaleiðum fyrir lögreglu, dómstóla og aðrar stofnanir í réttarvörslukerfinu opnast auk þess möguleikar á mun betra aðgengi málsaðila og almennings í framtíðinni að gögnum sem fólk á rétt á að sjá, í gegnum miðlæga þjónustugátt Island.is. Þannig höldum við áfram að byggja upp íslenska réttarríkið með stafrænum lausnum.
„Ég er virkilega ánægð með þétt og kraftmikið samstarf Kolibri og Dómsmálaráðuneytisins. Teymið hjá Kolibri býr yfir framúrskarandi hæfni til að vinna vel með notendum og setja sig í þeirra spor. Þessi eiginleiki hefur gert gæfumuninn í verkefninu. Sú nálgun að skila nægilega verðmætri lausn hratt í hendur notenda skilaði því einnig að við höfum fengið byr í seglin, það var mikil ánægja með lausnina strax og við höfum upplifað mikinn áhuga frá öllum á að þróa Réttarvörslugátt áfram og vinna fleiri sigra.“
Guðlaug Dröfn Þórhallsdóttir, verkefnisstjóri Réttarvörslugáttar hjá Dómsmálaráðuneytinu