TM • Nýr vefur
Ferskari tryggingar
Nýr vefur TM er ekki aðeins endurhannaður heldur útkoma úr stóru verkefni þar sem vefurinn var endurhugsaður. Allt efni og framsetning hefur verið tekin í gegn og byggir vefurinn á nýjum upplýsingaarkitektúr, nýrri tækni frá grunni, og frumsýnir uppfærða ásýnd fyrirtækisins sem var þróuð samhliða vefnum í samstarfi við Tvist.
Markmið og áherslur
Eitt allra helsta markmiðið var að núverandi og tilvonandi viðskiptavinir upplifi hvernig TM er leiðandi í stafrænni þjónustu með lausnum eins og TM appinu og Vádísi. Til þess þurfti ferskara og yngra TM. Í samstarfi við Tvist var hresst upp á liti, lógó, og leturmeðferð með áherslu á hvernig ásýndin virkar á stafrænum miðlum. Þá teiknuðu þau safn af einkennandi teikningu með það að markmiði að gefa TM meiri sérstöðu á tryggingarmarkaði (en ljósmyndir á þeim markaði voru allar mjög áþekkar).
Í notendareynslunni, bæði hvað vefhönnun og forritun varðar, var mikill fókus á upplifun um hraða, léttleika, og ferskt viðmót. Með þau atriði að leiðarljósi var hannað viðmót með hæfilegu hvítplássi, bjartari litum, laufléttri hreyfihönnun, og hnitmiðaðri textum – á mannamáli frekar en lögfræðimáli.
Þá voru aðgengismál auðvitað í farabroddi og klárt að upplifun skyldi jafn góð á síma, spjaldtölvu, eða stærri skjá.
Grunnur til að byggja á
Þar sem TM er fyrirtæki með mikla áherslu á stafræna þjónustu var augljóst að vinnan skyldi móta grunn sem myndi styðja við áframhaldandi og snögga þróun. Þetta tekur bæði til tækninnar, sem er dæmigerður nútímastakkur: NextJS sem React framework, Vercel fyrir hosting og deployment, og svokallað „hauslaust“ CMS kerfi frá Prismic, og þá var líka unnið hönnunarkerfi í Figma samhliða allri viðmótshönnun. Það kerfi er þá tilbúið til að nota í uppfærslu á öðrum stafrænum lausnum TM, t.d. í appinu, vefsölunni, mínum síðum, etc.
Gott samstarf tryggir góða útkomu
Framleiðslan fór fram í nánu samstarfi með þverfaglegri teymisnálgun. Teymið var samsett af fólki úr ýmsum deildum TM, sérfræðingum í hönnun og þróun hjá Kolibri, hönnuði í mörkun og teiknara hjá Tvist, textasmið, og hagsmunaaðilum á kantinum. Teymið beitti hönnunarhugsun og agile fyrirkomulagi og var því unnið í notendamiðuðum hönnunar- og þróunarferlum með mikilli áherslu á rannsóknir, gerð vefstefnu, og snöggri endurgjafarlúppu – og það að nær öllu leyti í fjarsamvinnu vegna Covid-19.
Nýr vefur TM var endurhannaður og endurhugsaður frá grunni. Allt efni og framsetning þess var tekin í gegn, með það að markmiði að hann yrði einfaldari, notendavænni og mannlegri. Vefurinn var unnin að nær öllu leyti í fjarsamvinnu vegna Covid -19, en samstarfið varð þó bæði virkilega skemmtilegt og lærdómsríkt.
Framúrskarandi hæfni starfsfólks Kolibri, nákvæmni og lipurð í teymisvinnu skiluðu vef sem sannarlega stóðst allar okkar væntingar.
Fríða Ásgeirsdóttir, Forstöðumaður markaðsmála hjá TM