Andes • Ný ásýnd og vefur

Örugg ásýnd í skýinu.

Andes hjálpar fyrirtækjum að færa sína tæknilegu innviði í AWS skýið sem og að betrumbæta núverandi AWS skýjalausnir fyrirtækja. Andes er vottaður samstarfsaðili AWS og státar bæði af AWS Partner og AWS Partner Public Sector vottun.

Andes leitaði til okkar þegar það var á svipuðum slóðum og mörg ung og hratt vaxandi fyrirtæki. Þau höfðu gott lógó í höndunum en voru komin á það þroskastig að þörf var á vandaðri ásýnd sem endurspeglar þjónustuna, gildin, og markmið — og svo uppfærðan vef í kjölfarið. Í upphafi samstarfsins tókum við létta vinnustofu þar sem við fórum í greiningarvinnu, rýndum í markaðinn og gerðum áætlun um næstu skref í verkefninu.

Letur með karakter

Letrið Programme varð fyrir valinu því það er sveigjanlegt, hefur skemmtilega skírskotun í forritun og býður upp á áhugaverða stílræna kosti í framsetningu stafa og hefur því sterka sérstöðu.

Nálgunin

Áskoranir við hönnun nýrrar ásýndar og skerpingu á stöðu fyrirtækisins á markaðnum voru nokkrar. Þrátt fyrir mikla þekkingu á sínu sviði og gott orðspor er fyrirtækið engu að síður ungt. Heildarmyndin þurfti því að endurspegla það traust og þann trúverðugleika sem Andes stendur fyllilega undir en á sama tíma að vera ekki of þungt í vöfum eða virka gamaldags. Útlitið þurfti að endurspegla traustan samstarfsaðila í rekstri, þróun og öryggi hagkvæmra skýjalausna á nútímalegan hátt.

Stafræn umbreyting fyrir öll fyrirtæki

Oft vill það henda að fólk hafi fyrirfram mótaða skoðun á því hvernig fyrirtækjum það henti best að vera með tæknilega innviði sína í skýinu. Hvort það henti frekar stórum en litlum fyrirtækjum, nýrri eða eldri, ungum sprotafyrirtækjum eða þroskuðum fyrirtækjum sem hafa komið sér vel fyrir á markaðnum og þar fram eftir götunum.

En staðreyndin er sú að í dag eru flest svið atvinnulífsins í hraðri stafrænni umbreytingu og tæknilegir innviðir á borð við netþjóna eru sífellt að verða eins og hverjir aðrir innviðir. Það leiðir til öryggis, skalanleika og sveigjanleika fyrir allar stærðir og gerðir fyrirtækja og stofnanna að útvista innviðunum til aðila á borð við AWS með trausta rekstrar- og þjónustuaðila á borð við Andes.

Þegar við nálguðumst Kolibri með þetta verkefni um nýja ásýnd og vef fyrir okkur komu þau strax til baka með skipulagða og vel útfærða nálgun á verkefnið. Á vinnustofum í upphafi verkefnisins lögðumst við vel yfir grunnatriðin sem við vildum skerpa á. Við skoðuðum markaðinn og skilgreindum okkar strategíu, greindum samkeppnina og markhópinn og rýndum í okkar stöðu í dag og hvert við vildum fara. Þá fórum við í greiningarvinnu á persónuleika, raddblæ og lykilskilaboðum vörumerkisins. Eftir nána og skilvirka samvinnu í upphafi var farið í tillögur og öll vinna og samskipti þar sem og í framleiðsluferli vefsins einkenndust af lipurð, framúrskarandi hæfni og auðmýkt.

Það er óhætt að segja að við séum í skýjunum með samstarfið sem stóðst allar okkar væntingar.

Ari Viðar Jóhannesson, framkvæmdastjóri og stofnandi Andes