Kiwi.com • Kynningar- og aðlögunarferli

Persónulegri þjónusta fyrir ferðalagið

Kiwi.com er ein stærsta ferðabókunarvél í heiminum og mögulega sú snjallasta. Þjónustan hefur náð miklum vinsældum vegna þess að henni tókst að koma ferðalöngum á áfangastað á ódýrari máta en aðrar bókunarvélar. Þetta gerðu Kiwi.com með því að para saman ódýrar flugferðir hjá flugfélögum sem bjóða venjulega ekki upp á þjónustu í kringum tengiflug. Kiwi.com varð þannig nokkurs konar sýndarflugfélag; stafrænt flugfélag sem hvorki á né rekur flugvélar.

Kiwi.com fékk teymi frá Kolibri til að endurhanna og þróa kynningar- og aðlögunarferli í appinu (e. onboarding) með það að markmiði að fjölga innskráningum og gefa fólki betri skilning á virði þess að stilla sínar eigin upplýsingar í appinu fyrir betri niðurstöður og þjónustu.

Áskorun

Kiwi.com appið er með þekkt þjónustuloforð. Það tengir annars ótengd flug fyrir betra verð. Fólk sem hefur sótt appið þekkir Kiwi.com vegna fyrri viðskipta, orðspors, eða eftir að hafa séð kynningu á því í App Store.

Í App Store eru skjáskotin einmitt hönnuð sem kynningarflekar þar sem þessum helstu upplýsingum var flaggað.

Eftir að notendur náðu í appið fengu þau upp aðlögunarferli af hefðbundinni sort þar sem flett er í gegnum statíska auglýsingafleka, og fengu þar í raun bara endurtekningu á sömu upplýsingum og á App Store. Þannig var verið að missa af mikilvægu tækifæri til að koma fólki betur inn í þjónustuna.

Útkoman

Kolibri hannaði og þróaði ferli þar sem innskráning, aðlögun og uppsetning notanda nýtur sín betur og í stað endurtekinna upplýsinga birtast stillingar fyrir appið, t.d. gjaldmiðill og heimaflugvöllur, hvers konar ferðalög eru á áhugasviði ferðalangsins og fleira í þeim dúr. Þá er hreyfihönnun við hvern smell nýtt til leiða notandann áfram – lauflétt og þægileg upplifun í samanburði við síðuflettingar á auglýsingaflekunum sem voru áður.